Velkomin í Hulduheima
Ágætu foreldrar!
- Um leið og við bjóðum barnið og ykkur velkomin í skólann, viljum við segja frá ýmsu tengdu starfsemi hans sem nauðsynlegt er að vita.
- Hulduheimar er skóli sem hefur tvær starfstöðvar, Sel í Kjalarsíðu 3 og Kot í Þverholti 3-5, og. Kot starfar í einni deild, með rými fyrir u.þ.b. 35 börn Sel er þriggja deilda skóli. Deildirnar heita Álfadeild, Dvergadeild og Trölladeild.
- Á Trölladeild eru börn 12 mánaða – 3 ára.
- Á Dvergadeild eru börn 3 – 6 ára. Á Álfadeild eru börn 3 – 6 ára. Rými eru fyrir u.þ.b. 59 börn.
- Leikskólinn er opinn frá kl. 7:45 – 16 :15. Komutími í skólann er frá kl. 7:45 – 9:00. Lágmarks sölutími er 4 klst. Ef óskað er eftir breytingu á skólatíma er það gert í gegnum þjónustugátt á heimasíðu Akureyrarbæjar akureyri.is .
- Skólinn reynir að koma til móts við þarfir foreldra varðandi skólatíma en ekki er víst að það sé alltaf hægt. Virða þarf þann skólatímatíma sem samið er um hverju sinni.
- Starfsmenn Stöðugildi í Seli eru u.þ.b. 23 á deildum í báðum skólum og 2,60% stöður samtals í eldhúsum beggja skóla. Auk þess eru kennarar vegna skólaþjónustu og til afleysinga vegna undirbúningstíma og veikinda. Starfsmenn eru um u.þ.b. tuttugu og sex.
Úr lögum um leikskóla:
- Í lögum um leikskóla 12.gr. segir “Leikskólastjóri og það starfslið er annast uppeldi og menntun barna skal hafa menntun leikskólakennara”. Leikskólastjóri er yfirmaður leikskóla og ber faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfseminni. Aðstoðarleikskólastjóri er staðgengill leikskólastjóra í fjarveru hans. Leikskólakennari með deildarábyrgð stýrir starfi á einstökum deildum. Leikskólakennarar og annað starfsfólk vinnur að uppeldisstarfinu með börnunum. Sérkennarar vinna með þau börn sem þurfa á því að halda. Starfsfólk leikskólans og skóladeildar er bundið þagnarskyldu um öll trúnaðarmál svo og hagi einstakra barna. Skóladeild
- Skólanefnd fer með yfirstjórn leikskólanna, fjármál, áætlanagerð, innritun barna og skipulagsmál. Verkefnastjóri fræðslusviðs- leikskólar er næsti yfirmaður leikskólastjóra Akureyrarbæjar. Verkefnastjóri og leikskólaráðgjafi annast faglegt eftirlit með starfi leikskólanna. Verkefnastjóri fræðslusviðs annast ráðgjöf við skólastjóra vegna stjórnunar og rekstrarlegra þátta. Ráðgjafaþjónusta Ráðgjöf vegna einstakra barna fer fram hjá fjölskyldudeild Akureyrarbæjar. Ráðgjafi vegna barna með skólaþjónustu annast faglega ráðgjöf við kennara og annað starfsfólk skólans. Fjölskyldudeild Akureyrar sér um að veita börnum sálfræði- og talmeinaþjónustu. Sýnist kennurum að frávik séu í þroska einstakra barna ber þeim að tilkynna það skólastjóra og sérkennslustjóra. Sé talin ástæða til áframhaldandi aðgerða er haft samband við foreldra og þeirra samþykkis leitað. Að því fengnu gerir sérkennslustjóri athuganir og sendir niðurstöður til fjölskyldudeildar en sérkennari sem þar starfar tekur málið fyrir og vísar því réttar boðleiðir. Háskólinn á Akureyri veitir stofnanaráðgjöf til skólanna að beiðni skólastjóra. Akureyrarbær og Háskólinn á Akureyri hafa gert með sér rammasamning. Samningurinn felur í sér ráðgjöf, sí – og endurmenntunaráætlanir og stuðning við skólana sem stofnun. Námssvið leikskólans.
- Aðalnámskrá leikskóla. Til samræmis við nýja menntastefnu menntamálaráðuneytis, sem byggir á lögum frá 2008, voru samþykktar Aðalnámskrár fyrir skólastigin þrjú í maí 2011, Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.
- Læsi snýst um kerfisbundin tákn og miðlunartækni en þó fyrst og fremst um merkingarsköpun þar sem tvær manneskjur eða fleiri miðla og reyna að skilja af reynslu sinni. Á venjulegu máli sem allir skilja má segja að um sé að ræða miðlun orða og reynslu á milli manna. Ekki bara hvað manneskjan segir heldur líka hvernig hún kemur skoðun sinni á framfæri og hvernig sá sem á hlýðir skilur skilaboðin. Hver þekkir ekki að tala við mann og finnast þeir tala í kross, finna að það vantar eitthvað upp á skilning áheyrandans og sá skortur hefur ekkert með greind að gera.
- Sjálfbærni. Með sjálfbærni er átt við að engin ein kynslóð hefur rétt umfram aðra til þess að rýra arfleið sína til næstu kynslóðar. Lagt er til grundvallar að hver kynslóð skili þeirri næstu umhverfi sínu og náttúru, í ekki lakara ásigkomulagi en hún tók við henni. Hugtakið er gildishlaðið og felur í sér samábyrgð manna, jafnvægi í náttúrunni, efnahagslegt jafnvægi, jafnvægi í samfélaginu og lýðræði. Það felur einnig í sér nám sem eykur m.a. færni barna og ungmenna til þess að takast á við margvísleg álitamál og ágreiningsmál og sem stuðlar að vilja þeirra og áhuga til þess að taka þátt í samfélaginu.
- Lýðræði og mannréttindi: Það er mikilvægt skólakerfið kenni börnunum djúpstæða virðingu fyrir manngildi hvers og eins, um leið og þau læra hvernig lýðræðssamfélög virka. Umhyggja fyrir dýrum og náttúru er einnig hluti lýðræðismenntunar og á heima í öllum námsgreinum. Lýðræðis og mannréttindamenntun felur einnig í sér hæfnina til að gagnrýna og endurmeta grunngildi samfélagsins. Þetta þarf að gerast í samstarfi á milli skólanna og heimilisins sem og hinna ýmsu stofnana samfélagsins.
- Jafnrétti er regnhlífarhugtak og nær til ýmissa þátta s.s; aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumála, ætterna og þjóðerna. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað erum hvernig fyrrtaldir þættir geta valdið mismunun eða forréttindum í lífi fólks.
- Heilbrigði og velferð: Þegar rætt er um heilbrigði er vísað til andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar vellíðanar fólks. Allt skólastarf á að miða að því að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velllíðan barnanna með tilliti til sjálfsmyndar, hreyfingar, næringar, hvíldar, andlegrar vellíðanar, góðra samskipta, öryggis, hreinlætis, kynheilbrigðis og skilnings á eigin tilfinningum og annarra. Sköpun er leið einstaklings til þess að tengja nýja upplifun fyrri þekkingu og verða þannig ,,meiri í dag en í gær“ Sköpunargleðin sprettur fram vegna forvitni og athafnaþrá sem leiðir til námsáhuga og frumkvæðis. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Hún brýtur hefðbundin mynstur, reglur og kerfi og veitir nýja sýn á fyrirbæri og viðteknar hugmyndir. Leikur er mikilvæg námsaðferð og opnar víddir þar sem sköpunargleði barna og ungmenna getur notið sín. Hamingja og gleði liggja í því að finna hæfileikum sínum farveg og fá að njóta sín sem einstaklingur og hluti af heild. Áhersluþættir í starfi skólans
- Unnið eftir hugmyndafræðinni Lífsleikni í leikskóla. Þar eru teknar saman kenningar ýmissa fræðimanna sem snúa að mannrækt og siðferðilegu gildismati í samfélagi manna og mikilvægi þess að efla og styrkja hið góða í hverjum einstaklingi, bæði börnum og fullorðnum. Við nýtum okkur hugmyndafræði Loris Malaguzzi um uppeldisfræðilega skráningu. Samkvæmt kenningum Dewey lærir barnið af eigin reynslu, virkni og áhuga. Hann lagði áherslu á samvinnu og að vinna í félagslegri heild þroski sjálfsvitund og skilning barnsins. Howard Gardner segir að samskiptagreind sé sá hæfileiki að skilja annað fólk og það sem fyrir því vakir, hvernig það vinnur og hvernig unnt er að starfa með því. Sjálfsþekkingargreind er samsvarandi hæfileiki sem beinist inn á við. Hún felur í sér getu til að móta nákvæma og sanna sjálfsmynd og vera fær um að nota hana sér til framdráttar í lífinu. Hugmyndafræðin að baki lífsleikninni byggir á því að kenna sérstakar dygðir s.s. hugrekki, vinsemd, samkennd, hófsemi, virðingu, glaðværð og fleira. Lífsleiknin byggir á trú á sammannlegan grunn í ákveðnum persónudygðum. Börn læra dygðirnar af dæmum og þurfa að æfa sig þar til það verður þeirra annað eðli. Þau bregðast „rétt“ við ýmsum siðferðilegum aðstæðum vegna þess að það er orðið þeim eðlislægt. Loris Malaguzzi lagði áherslu á uppeldisfræðilega skráningu. Þær eru mikilvægt tæki til að sýna foreldrum, starfsmönnum, börnum og jafnvel ráðamönnum hvað er að gerast í leikskólanum. Þannig er hægt að fylgjast nánar með starfi, leik og framförum barnanna og hvernig starfsmenn vinna með börnum Hugarró Við vinnum með Hugarró en það er þróunarverkefni sem byrjaði 2017. Markmið hugarró snýr að andlegri heilsu barna og kennara. Starfið snýst um að minnka streytu og kvíða bæði hjá börnum og kennurum. Kennarar vinna með slökun í starfinu því þannig næst meiri ró hjá börnum og streituvöldum fækkar. Notaðar eru hugleiðsluaðferðir og öndunaræfingar í daglegu amsti og slakað á. Allt tengist þetta lífsleikni í Leikskóla Agastefna skólans. SMT - skólafærni Í ársbyrjun 2010 hóf leikskólinn Síðusel innleiðslu á SMT- skólafærni (School Management Training). Markmið SMT- skólafærni er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsmanna. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsmanna gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga, í Oregon í Bandaríkjunum, og er framkvæmd í samráði við þá. SMT- skólafærni byggir á sjö verkfærum sem kennarar styðjast við til að stuðla að æskilegri hegðun nemenda og takast á við óæskilega hegðun. Áhersla er lögð á að gefa börnunum skýr fyrirmæli. Með skýrum fyrirmælum er átt við að kennari sé rólegur, nái athygli barnsins, sýni því kurteisi, virðingu og ákveðni, segi barninu hvað það á að gera, forðist orðaflaum og noti fá og skýr orð. Í SMT- skólafærni er hvatning höfð í fyrirrúmi. Hvatning beinir athygli að æskilegri hegðun. Hrós er góð leið til að sýna börnum jákvæða athygli og til að auka tíðni æskilegrar hegðunar. Öll börn þurfa ákveðinn ramma utan um hegðun sína. Þegar saman fara mörk og hvatning stuðlar það að heilbrigðum þroska barna og eykur sjálfstraust þeirra. Þannig öðlast börn öryggi í umhverfi sínu og læra æskilega hegðun. Í SMT- skólafærni eru mörk skilgreind sem ákveðinn rammi utan um hegðun barna ásamt því að reglur eru skilgreindar til þess að auðvelda börnum að greina á milli æskilegrar og óæskilegrar hegðunar. Að okkar mati fellur SMT- skólafærni vel að lífsleikninni. Aðlögun í leikskólann
- Leikskólagangan. Þegar barn byrjar í leikskóla verða miklar breytingar í lífi þess. Sú aðferð sem við notum til að aðlaga barn í leikskólann er svonefnd þátttökuaðlögun og byggir á því að barn og foreldri læra saman á nýjar aðstæður. Þátttökuaðlögun byggir m.a. á þeirri trú að foreldrar smiti eigin öryggiskennd, forvitni og tilhlökkun yfir þessum nýju aðstæðum til barna sinna. Foreldrar eru þátttakendur frá fyrsta degi og öðlast þar með öryggi um skipulag skólans, ásamt því að sjá starfsmenn í verki. Með góðum aðlögunartíma aukast tengslin milli foreldra og starfsmanna og grunnur er lagður að áframhaldandi foreldrasamstarfi. Foreldrar kynnast ekki bara starfsmönnum heldur einnig öðrum börnum og foreldrum. Framkvæmd þátttökuaðlögunar felst í því að aðlaga stóran barnahóp samtímis á þremur dögum. Foreldrar sinna öllum þörfum barna sinna þessa þrjá daga og fara ekkert frá nema brýna nauðsyn beri til.
- Á öðrum degi aðlögunar er hádegisfundur þar sem kennarar kynna SMT- skólafærni sem er agastefna skólans. Nauðsynlegt er að báðir foreldrar sitji þessa kynningu ef þess er nokkur kostur.
- Á meðan á aðlögunartíma stendur eru foreldrar, börn og starfsmenn merkt með nafninu sínu til að samskipti gangi betur. Starfsmenn útbúa þessar merkingar.
- Af virðingu við börn og starfsmenn skólans eru foreldrar beðnir um að nota ekki GSM síma á meðan á aðlögun stendur.
Við vonumst til að foreldrar njóti þess að vera með okkur í leik og starfi á aðlögunartíma barnsins.
- Dagur 1: Barn og foreldri mæta kl. 9:15 og eru til kl. 11:15.
- Dagur 2: Barn og foreldri mæta kl. 8:00 og eru til kl. 15:00.
- Dagur 3: Barn og foreldri mæta kl. 8:00 og eru til kl. 15:00, þegar barnið hvílist í hádeginu er fundur.
- Dagur 4: Foreldri kveður barnið fljótlega eftir að komið er í skólann og barnið er sótt í fyrra lagi.
- Ef foreldrar taka eftir einhverju sem betur má fara biðjum við þá vinsamlega að láta okkur vita. Trúnaður foreldra Í aðlögun dvelja foreldrar í skólanum. Bæði þá og í öðrum samskiptum við skólann koma þeir til með að sjá og heyra ýmislegt um hin börnin. Við óskum eftir að foreldrar sýni trúnað og ræði þau mál ekki út á við. Samtöl
- Allir foreldrar eru boðaðir í samtal við umsjónarkennara barnsins a.m.k. einu sinni á ári.
- Að auki eru foreldrar barna sem eru nýbyrjuð í skólanum, boðaðir í samtöl 3 mánuðum eftir að aðlögun er lokið. Í þessum samtölum er rætt um líðan barnsins, hæfni þess og þroska til að takast á við verkefni, kröfur og fl. Foreldrar geta síðan að sjálfsögðu alltaf beðið um samtal.
- Foreldrum er að sjálfsögðu velkomið að hringja í skólann til að spyrja um barnið og eins mun starfsfólk hringja ef þörf krefur. Útbúnaður:
- Klæðnaður barnanna þarf að vera í samræmi við veðurfar og hafa ber í huga að skjótt skipast veður í lofti hér á landi. Merkja skal föt barnanna, sérstaklega útiföt. Nauðsynlegt er að hafa aukafatnað og inniskó í skólanum. Deildarstjórar afhenda foreldrum lista yfir nauðsynlegan búnað.
- Í skólanum vinna börnin með ýmis efni sem geta skemmt fatnað. Nauðsynlegt er að þau séu í fötum við hæfi.
Veikindareglur:
- Leikskólinn er ekki fyrir veik börn. Ekki er tekið við börnum sem eru að veikjast. Barn smitar mest þegar það er að veikjast. Ef barn veikist í skólanum, er haft samband við foreldra. Þegar barnið kemur aftur í skólann eftir veikindi þarf það að vera orðið það hresst að það geti tekið þátt í starfi skólans. Ekki er um inniveru að ræða eftir veikindi en sjálfsagt að barnið fari síðast út og fyrst inn, til að stytta útiveruna. Ekki eru gefin lyf í skólanum nema tilkomi vottorð frá lækni um að lyfjagjöf sé nauðsynleg á skólatíma. Ýmislegt:
- Nauðsynlegt er að tilkynna breytingar á högum og aðstæðum s.s. veikindi, andlát í fjölskyldu, fjarveru foreldra, nýtt heimilisfang, símanúmer, byrjun og námslok námsmanna eða breytta hjúskaparstöðu. Foreldrar eru hvattir til að leita til kennara ef vandkvæði koma upp með skólavist barns. Þannig er hægt að vinna saman að farsælli lausn. Starfsfólki skólans er úthlutað 48 klukkustundum í starfsmannafundi, skipulagsfundi og námskeið á hverju skólaári. Foreldrum er tilkynnt um þessa daga á námskrá mánaðarins auk þess sem þessir dagar eru merktir inn á skóladagatalið og lokunardagarnir eru listaðir upp hægra megin á forsíðu heimasíðu skólans. Allar upplýsingar til foreldra eru auglýstar í forstofu á upplýsingatöflum, sendar með tölvupósti og svo eru allir helstu atburðir í mánuðinum að finna á námskrá mánaðarins. Foreldrar ættu því ekki að missa af neinu sem um er að vera eða þarf að koma til skila. Útivera:
- Útiveran skipar stóran sess í leikskólastarfinu enda elska flest börn að vera úti. Þar fá þau þjálfun í grófhreyfingum og félagsþroskinn fær byr undir báða vængi. Við förum út tvisvar á dag flesta skóladaga ársins, nema yngstu börnin sem fara venjulega minna út fram að áramótum. En þjálfunin sem börnin fá við að hjálpa sér sjálf við að klæðast útifötum er mikilvæg þrátt fyrir að tíminn úti verði styttir fyrir vikið. Reglur um hverjir sækja barnið í leikskólann.
- Í fyrsta upplýsingasamtali kennara og foreldra tilgreina foreldrar þá sem hafa þeirra leyfi til að sækja barnið í skólann og skrifa undir það. Þetta er öryggisatriði . Ef einhverjir aðrir sækja barnið þurfa foreldrar að láta starfsfólk vita, að öðrum kosti er barninu ekki hleypt út úr skólanum fyrr en búið er að hafa samband við foreldra. Börnum yngri en 12 ára er að jafnaði ekki heimilt að sækja barn í leikskólann, jafnvel þó um systkini sé að ræða.
- Hefðir og venjur
- Afmælisdagar: Á sjálfan afmælisdaginn er tekið á móti afmælisbarninu með afmælisósk í fatahólfinu, afmælissöngurinn er sunginn, barnið fær kórónu, velur lög í söngstund, er borðstjóri o.fl. Við óskum eftir því að foreldrar setji ekki boðskort í afmæli í hólf barnanna. Hins vegar er velkomið að fá nafnalista með símanúmerum barnanna á deildinni svo hægt sé að bjóða þeim símleiðis í afmælisveislu heima við.
- Kaffiboð fyrir foreldra, ömmur og afa eru fastur liður á hverju skólaári en þá sjá börnin um að útbúa veitingar til að bjóða upp á.
- Þorrablót er haldið í kringum Bóndadaginn með tilheyrandi hefðum. Öskudagurinn er haldin hátíðlegur í skólanum með öskudagsballi og skemmtun. Þá koma allir í búningum í skólann og "kötturinn sleginn úr tunnunni".
- Dagur leikskólans er 6. febrúar ár hvert. Markmið hans er að gera samfélagið meðvitaðra um starf skólans og gildi þess fyrir börnin, menninguna og þjóðarauðinn.
- Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur 16. nóvember ár hvert. Við fáum gjarnan nemendur úr grunnskólanum til að lesa fyrir börnin og gerum okkur dagamun.
- Umhverfisvika er á vorin en þá fara börnin út og tína rusl í kringum skólann og snyrta næsta nágrenni.
- Vorhátíð er haldin í samvinnu við foreldrafélagið, grillveisla í byrjun júní með ýmsum uppákomum en hátíðin byrja á útskrift elstu barnanna úr leikskólanum.
- Jólaball er haldið í skólanum með heimsókn rauðklæddra gesta.
- Jólaverkstæði er í desember þar sem börnunum gefst tækifæri til að útbúa skraut eða annað tengt jólunum.
- Vinasöngur er haldinn einu sinni í mánuði yfir veturinn og hafa deildirnar umsjón með vinasöngnum til skiptis. Vinastundir eru haldnar að minnsta kosti einu sinni á önn. Í þessum stundum er til umfjöllunar sú dygð sem unnið er með hverju sinni.
- Þjóðhátíðarstemning er í skólanum síðasta virka dag fyrir 17. Júní en þá förum við ýmist í skrúðgöngu um nágrennið með fána, blöðrur og söng eða við gerum eitthvað á skólalóðinni til hátíðabrigða.
- Snillingarnir. Yfir vetrartímann vinna elstu börnin í skólanum saman einu sinni í viku að sérstökum verkefnum. Þessi hópur kallast Snillingahópur. Samstarf er milli Snillingahóps og heimilisfólks á öldrunarheimilinu Lögmannshlíð. Börnin fara í heimsóknir í Lögmannshlíð og eldri borgararnir heimsækja þau í skólann. Þetta samstarf er mjög gefandi fyrir alla sem að því koma. Aðrir viðburðir eru settar á námskrá mánaðarins sem send er í tölvupósti á foreldra, auk þess er hún sett á facebook síðu deilda. Við hvetjum foreldra til að fylgjast vel með.
- Hulduheimar er umhverfisvænn skóli. Markmið okkar er að efla þekkingu og skilning kennara og barna fyrir mikilvægi sjálbærrar þróunar og að það sé sjálfsagðu þáttur í öllu starfi skólans. Við flokkum og endurvinnum því þannig eflum við virðingu kennara og barna fyrir verndun umhverfisins. Samstarf milli skólastiga.og vinnum sérstaklega með matarsóun. Þau börn sem eru í elsta árgangi skólans hverju sinni, vinna saman í hóp sem miðar að því að byggja brú milli skólastiganna. Samstarfið er á milli Hulduheima - Sels og Síðuskóla en Hulduheimar – Kot hafa samstarf við Glerárskóla. Elstu börnin heimsækja grunnskólann og nemendur úr yngsta bekkjum samstarfsskólanna koma í heimsókn í leikskólana. Áætlanir yfir heimsóknirnar er gerðar á hverju hausti.
- HLJÓM 2 athugun á hljóð- og málvitund leikskólabarna er einnig lögð tvisvar fyrir elstu börnin á síðasta ári þeirra í skólanum. Niðurstaða þeirrar athugunar er notuð til þess að vinna með þá þætti lestrarundirbúningsins sem er ábótavant. Uppsagnarfrestur:
- Uppsagnarfrestur á leikskólaplássi er einn mánuður og miðast hann við mánaðarmót eða 15. hvers mánaðar. Skal uppsögninni komið til leikskólastjóra á eyðublaði sem er í fataherbergjum deilda. Heimilt er að krefjast eins mánaðar greiðslu, hafi reglu um uppsagnarfrest ekki verið fylgt. Uppsagnir vegna barna sem eru að fara í grunnskóla fylgja öðrum reglum. Þeim uppsögnum þarf að skila í febrúar. Foreldrafélag Foreldrafélag er starfandi við skólann. Markmið foreldrafélaga er að efla tengsl foreldra við starf leikskólanna og tryggja velferð barnanna sem best. Allir foreldrar/forráðamenn barna verða sjálfkrafa félagar um leið og barnið byrjar í leikskólanum. Frekari upplýsingar eru undir foreldratenglinum á heimasíðu. Foreldraráð
- Foreldraráð skipa 3 til 4 foreldrar sem kosnir eru að hausti til eins árs í senn.
- Helstu hlutverk foreldraráðs eru: Fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið.Fylgist með framkvæmd áætlana og að þær séu kynntar foreldrum. Kemur á framfæri sjónarmiðum og hugmyndum foreldra til skólastjórnenda og skólanefndar. Starffar með skólastjóra að hagsmunum barnanna og skólans. Kæru foreldrar! Að loknum lestri þessa bæklings vakna eflaust margar spurningar um starfsemi leikskólans. Við hvetjum foreldra til að spyrja og ræða við okkur um óljós atriði. Verið óhrædd við að segja ykkar álit á starfseminni, við viljum gera okkar besta í vinnu með börnunum ykkar. Munum að opin og góð samskipti stuðla að öryggi barnsins í leikskólanum. Á heimasíðu leikskólans hulduheimar.karellen.is er að finna ýmsar upplýsingar og myndir úr starfinu.
Með bestu kveðjum og ósk um gott samstarf, Snjólaug Brjánsdóttir skólastjóri Hulduheima